Hvað er gjörhygli?


Gjörhygli er íslensk þýðing á enska orðinu mindfulness, sem er ensk þýðing á orðinu sati, en það er ættað úr palí sem er ævagamalt tungumál og reyndar hvergi talað lengur.

Það hefur löngum reynst erfitt að finna íslenskt orð fyrir sati. Þórbergur Þórðarson þýddi það með orðinu gjörhugun og Kristján Eldjárn forseti Íslands talaði um gjörhygli í einni af nýársræðum sínum. Aðrar algengar þýðingar eru orðin árvekni og núvitund.

Gjörhygli er eiginleiki sem við búum öll yfir í mismiklum mæli, en hún er einnig eiginleiki sem við getum þjálfað. Kínverska táknið fyrir gjörhygli er samsett úr þremur táknum. Eitt táknið stendur fyrir núverandi augnablik, annað fyrir hjarta og hið þriðja fyrir heimili. Í stuttu máli þýðir þetta: Að hafa hjartað heima á þessu andartaki.

Gjörhygli fjallar um athygli, að beita athyglinni á ákveðinn máta. Við einsetjum okkur að beina athyglinni að líðandi stund. Við beinum huga okkar með öðrum orðum að því sem er að gerast núna, erum ekki víðs fjarri í huganum, erum hvorki með hugann við það sem er liðið né einhvers staðar í framtíðinni eða við það sem er ógert, heldur einmitt hér og nú - án þess að fella dóma, án fyrirfram gefinna skoðana eða fordóma, heldur með því að sættast við það sem við finnum, skynjum, hugsum, heyrum eða sjáum.

Ein leið til þess að útskýra gjörhygli er að spyrja hvað það sé sem skiptir verulegu máli í lífi okkar. Taktu þér örstutta hvíld frá lestrinum og rifjaðu upp augnablik sem skiptir þig verulega miklu máli. Já, stattu nú upp frá tölvuskjánum og hugsaðu um einhverja þá stund sem er þér verulega mikilvæg. Kannski var það sérstakur tími sem þú áttir með einhverjum þeim sem þú elskar, kannski er það náttúran sjálf og þeir töfrar sem þar er að finna. Á þessu augnabliki, hvað var hugur þinn að gera? Á þessu augnabliki, dvaldir þú þá við það sem er liðið, eða varstu að hugsa um framtíðina? Flestir minnast mikilvægra stunda sem tíma þar sem þeir voru heilir og óskiptir, til staðar í lífi sínu og tóku eftir því sem var að gerast þá og á þeirri stundu. Þetta eru augnablik gjörhygli.

Gjörhygli þarf þó ekki að tengjast stórum stundum í lífi okkar - hún felst líka í því að veita hinu smáa og hversdagslega athygli, bæði því sem er í kringum okkur, í umhverfi okkar; heyra fuglasöng, sjá fyrstu blómin á vorin, sjá blikið í augum barnanna okkar, hlusta af fyllstu athygli á þann sem við erum að tala við. Hún tengist líka því að vera meðvituð um okkur sjálf, taka eftir eigin líkama, hugsunum, tilfinningum og líðan.

Stundum geta ljóð skýrt hlutina betur en mörg orð. Það er til japönsk hæka eftir Matsuo Basho, sem var uppi á átjándu öld og tekst að grípa augnablik gjörhyglinnar.

Gömul tjörn!
Froskur stekkur út í -
Hljóð í vatni.

Það má líka reyna að skýra út gjörhygli með því að skoða hvað hún er ekki. Okkur hættir öllum til að vera annars hugar og taka ekki eftir lífinu í kringum okkur. Við setjum eins konar sjálfstýringu í gang. Hver hefur t.d. ekki reynt það að ætla sér að sækja föt í hreinsun á leiðinni heim úr vinnunni, en áður en við vitum af erum við komin heim og fötin enn í hreinsuninni. Eða fara út í búð, og þegar við komum heim erum við með fullan poka af varningi sem við höfum keypt en höfum gleymt mjólkinni sem við fórum út í búð til að sækja. Eða standa sig að því að vera komin með harðfiskbita með smjöri í hendurnar rétt fyrir kvöldmat þrátt fyrir ásetning um borða ekki á milli mála og láta vera að borða klukkustund fyrir kvöldmat. Þegar við erum gjörhugul, þá erum við ekki á sjálfsstýringunni heldur fyllilega meðvituð um hvað er að gerast hér og nú.

Gjörhygli er ekki leið til að öðlast alsælu og ekki heldur leið til þess að slaka á - stundum er núverandi stund óþægileg, okkar eigin hugur kann að vera tættur og okkur líður öllum illa stundum. Gjörhygli er heldur ekki leið til þess að deyfa sárar tilfinningar, verki og sársauka. Því síður er hún leið til að losna frá lífinu heldur þvert á móti. Með gjörhygli erum við enn meira til staðar í lífinu en ella, og með gjörhygli getum við aukið getu okkar til að þola verki og sársauka.

Gjörhygli er ekki að gera eitthvað - það sést ekki mikið eftir okkur - í gjörhygli þá erum við og finnum það sem er.

Það eru margar leiðir til að stunda gjörhygli. Óformlega er hægt að stunda gjörhygli hvenær sem er í daglegu lífi. Þetta eru stundir þegar við erum alveg til staðar, finnum það sem er að gerast hér og nú. Þetta er hægt að gera hvar sem er, í biðröðinni í matvörumarkaðinum, á meðan við erum að tala við börnin okkar eða erum ein á gangi.

Formleg æfing er það þegar við setjumst niður og hugleiðum. Það má líta á hugleiðsluna eins og á líkamsrækt. Hugleiðslan styrkir hæfileika okkar til að vera gjörhugul í daglega lífinu. Til að kyrra hugann er athyglinni oftast beint að einhverju einu, oft andardrættinum, innöndun og útöndun. Þegar hugurinn er orðinn rólegur er hægt að fylgjast með því sem kemur og hvert athyglin fer. Sú hugleiðsla sem byggist á gjörhygli getur haft mikil áhrif á daglegt líf þeirra sem stunda hana. Hún er hjartað í búddískri hugleiðslu, en hefur ekkert með trúarbrögð að gera, allir geta hugleitt, sama hver trú þeirra er eða hvort þeir trúa yfirleitt. Zen-jógar og búdda-munkar hafa um aldaraðir beint athyglinni inn á við, grandskoðað sjálfa sig, til að reyna að skilja hvernig mannshugurinn starfar. Fyrir þeim er slík hugleiðsla leið fyrir hvern sem er til að draga úr þjáningum en þroska þess í stað með sér jákvæða eiginleika - meðvitund, innsæi, visku, samkennd og jafnlyndi. Það er ekkert dularfullt við gjörhygli, gildið felst í stöðugri æfingu og því hvernig okkur tekst að nota hana.

Enn formlegri æfing felst í því að draga sig í hlé, eins og jógar og munkar hafa gert um aldaraðir. Hlédrög (e. retreat) fara oftast að mestu leyti fram í þögn. Mikill hluti tímans er notaður til þess að hugleiða, ýmist sitjandi eða gangandi, stundum eru einnig gerðar jóga-teygjur. Allt er nýtt sem tækifæri til að æfa það að vera að fullu meðvituð manneskja. Þessi seta með sínum innri manni getur vissulega reynt á okkur, því að þá er ekkert til að dreifa athyglinni. En slík hlédrög ýta hins vegar oft undir innsæi og við verðum næmari og meira til staðar eftir að hafa iðkað þau.

Það hafa verið skrifaðar argar lærðar bækur um það hvað gjörhygli er, og hægt er að hafa um hana mörg orð. En þau hrökkva þó skammt því að loks verðum við finna og upplifa gjörhygli.MBSR og MBCT

Það er ekki langt síðan vísindamenn á Vesturlöndum tóku að gefa gaum að gjörhygli, því að sú saga spannar aðeins fjóra áratugi. Í fyrstu birtist ein og ein fræðigrein um gjörhygli á stangli, en á síðustu árum hefur hér orðið á mikil breyting. Nú liggja fyrir víðtækar rannsóknir á fyrirbærinu og nærri lætur að daglega birtist grein um gjörhygli í viðurkenndum ritrýndum vísindaritum.

Sá maður sem hefur átt mestan þátt í að færa gjörhygli inn á svið nútíma læknisfræði er Jon Kabat-Zinn, en hann starfaði við Háskólann í Massachusetts. Þar þróaði hann átta vikna löng námskeið fyrir sjúklinga sem þurfa að lifa með langvarandi veikindum, og eru margir þeirra verkjasjúklingar. Námskeiðið kallaði hann Mindfulness Based Stress Reduction (MBSR). Hróður þessara námskeiða barst víða og þau urðu fyrirmynd að námskeiði sem þrír háskólakennarar og fræðimenn, Zindel Segal, og laga námsefnið að John Teasdale og Mark Williams, byggðu á. Þessir menn juku við það sem Jon Kabat-Zinn hafði lagt upp með og bættu við æfingum úr Hugrænni atferlismeðferð. Meðferð sína kölluðu þeir Mindfulness Based Cognitive Therapy (MBCT).

Bæði MBCT og MBSR hafa verið ýtarlega rannsökuð og niðurstöður hafa sýnt að þau nýtast þeim vel sem eru að fást við líkamlega sjúkdóma eins og verki, síþreytu, krabbamein, vefjagikt og háan blóðþrýsting. Námskeiðin hafa einnig gagnast fólki sem glímir við andlega vanlíðan eins og streitu, þunglyndi, geðhvarfasýki og kvíða, Enn er verið að rannsaka áhrif þess að tileinka sér gjörhygli og hvernig nýta má hana til þess að fást við erfiðleika mismunandi sjúklingahópum og að hópum sem ekki eru sjúklingar, t.d í því skyni að efla ástar- og fjölskyldubönd, og styrkja fólk sem vinnur undir álagi eða er í erfiðu námi.

 

 

Næstu námskeið


27. oktober - Núvitund og hugræn atferlismeðferð. (MBCT eða Mindfulness Based Cognitive Therapy) Gagnprófað og þaulreynt meðferðarnámskeið, fyrir þá sem vilja læra að fyrirbyggja endurteknar þunglyndisdýfur. Kennt á föstudögum kl 10-12 í 8 vikur. Kennarar eru sálfræðingarnir: Margrét Arnljótsdóttir og Guðbjörg Daníelsdóttir 

8. november 2017 og 17. janúar 2018 - Núvitund og samkennd í eigin garð (MSC - Mindful Self Compassion) eftir Chris Germer og Kristinu Neff. Kennt er á miðvikudögum síðdegis í 8 vikur. Kennarar eru sálfræðingarnir Margrét Arnljótsdóttir og Margrét Bárðardóttir Nánari upplýsingar og skráning á þessi námskeið eru hjá netfanginu gjorhygli@gmail.com